Ég hef því miður ákveðið að hætta miðlun vod leigu á streymisumhverfi Filmflex.
Ástæðan er margföld.
Í fyrsta lagi er streymisveitum samkvæmt leyfisveitingu Fjölmiðlanefndar skylt lögum samkvæmt að texta eða talsetja allt sitt efni á íslensku,en án þess að tilkomi stuðningur á móti. Mikið hefur verið fjallað um s.k. fjölmiðlastyrki en því miður ná þeir ekki til íslenskra streymisveitna, heldur er þeim ætlað að styðja við fréttatengda miðla einungis.
Það er að sjálfsögðu lítið mál að starfa á samkeppnisvettvangi sé varan góð, en umhverfið sem starfað er í þarf þá að lúta heilbrigðum samkeppnissjónarmiðum, en því miður er það hreinlega ekki svo þegar einum er skylt að leggja í töluverðan kostnað við að koma sinni vöru á markað, en öðrum nægir að leggja töluvert minna til sinnar vöru, þannig að samkeppnin er skökk frá fyrsta degi. Það er því ójafn leikur að þurfa að stunda sín viðskipti í lagaumhverfi sem kemur svo ekki til móts við rekstraraðila með neinum hætti og því óraunhæft að stunda samkeppni við erlendar risa streymisveitur sem þurfa ekki að fara eftir þessum lögum og geta því boðið landsmönnum kvikmyndir og sjónvarpsþætti á ensku eða öðrum tungumálum.
Filmflex hefur boðið með miklum metnaði um 600 kvikmyndir með íslenskum texta sem á kostnaðarverði leggst út fyrir að vera margar milljónir króna, allt unnið í sjálfboðavinnu, auk þess að hafa boðið talsett barnaefni á Íslensku.
Í öðru lagi kosta efnisréttindi sitt, þýðing á íslensku og textun kvikmynda er kostnaðarsöm.
Filmflex sem hluti af Íslenska Sjónvarpsfélaginu er eitt elsta starfandi efnisréttarfyrirtæki landsins.
Félagið hefur keypt sýningarréttindi fyrir dreifingu á Íslandi frá árinu 1986 og er stolt af því að hafa miðlað fjölmörgum kvikmyndum til landsmanna um ólíkar dreifileiðir fyrst um vhs og nú síðast í streymi. Filmflex hefur sérhæft sig í að sýna eldri kvikmyndaperlur og var tilgangur vod leigunnar fyrst og fremst sá að kynna fyrir nýjum kynslóðum eldri kvikmyndaperlur og þær bíómyndir sem félagið hefur sýningarréttindi á hér á landi sem sýndar voru í kvikmyndahúsum borgarinnar á áttunda áratugnum.
Leiguverði var verulega stillt í hóf, en á sama tíma og verð eins bíómiða í dag er um 2000 krónur var meðalverð leigunnar 590 krónur.
Á meðan sjóræningjastarfsemi er látin óátalin er það nær vonlaust að reka vod leigu í því umhverfi sem nú líðst þegar ólöglegt niðurhal og auðvelt aðgengi almennings að höfundarvörðu myndefni sem við erum að kaupa til að geta sýnt hér löglega er svo auðveldlega aðgengilegt þarf ekki að spyrja að leikslokum.
Í þriðja lagi er streymisveitu”bransinn” tiltölulega nýr og erlendir aðilar eru leiðandi í að bjóða fyrirtækjum eins og okkar tæknilausnir til að koma efni okkar á framfæri, kostar þetta skildinginn þar sem upphal á servera og geymsla gígabæta efnis er mjög dýr og því er það bara þannig að töluvert gat myndast milli kostnaðar og leigutekna um hver mánaðarmót sem mjög erfitt er að verja til lengdar, þó tilgangurinn sé sá að miðla kvikmyndaperlum þá gengur það ekki endalaust að skila rekstrinum öfugu megin við núllið endalaust.
Því er rekstrarumhverfi einkarekinna afþreyingarmiðla á Íslandi óboðlegt samkvæmt ofangreindu.
Það er ekki eins og allt hafi verið reynt til að auka þjónustuna, leitað var til framleiðanda íslenskra kvikmynda sem sýndu því engan áhuga að miðla íslenskum kvikmyndum sínum á leigunni sem er grátlegt því eftir því hefur verið kallað í mörg ár að geta boðið allar íslenskar kvikmyndir á einum og sama vettvangi, en því miður reyndist ekki áhugi fyrir því. Ég er mjög hræddur um að slík leiga muni aldrei líta dagsins ljós, því miður fyrir íslenskar kvikmyndir.
Sem forráðamaður Filmflex hef ég með greinarskrifum í Morgunblaðið, nú síðast 20 mars s.l. ítrekað kallað eftir að markaðurinn sé lagaður að íslenskum streymisveitum, en því miður talað fyrir daufum eyrum ráðamanna þjóðarinnar sem þó berja sér á brjóst og lofa landsmönnum því að íslenskan muni ávallt vera höfð að leiðarljósi í samkeppni við erlend afþreyingaráhrif, en því miður eru þetta orðin tóm, allavega fyrir þessa streymisveitu sem hefur barist fyrir tilveru sinni, með sérhæfingu, frá því að hún fór fyrst í loftið um mitt ár 2021 og hefur staðið vaktina síðan, án styrkja.
Það er því ljóst að kostnaður við textun, kóðun, kaup á sýningarréttindum, uppsetningu efnis á server er töluvert hærri en leigutekjur og því er sagan úti í bili a.m.k. og grátlegt að upphaflegt markmið Filmflex að geta veitt nýjum kynslóðum aðgengi að kvikmyndaperlum gærdagsins er því úti, því miður.
Við þökkum þeim sem kíktu við og tóku myndir á leigu hjá okkur og styrktu íslenska streymisveitu fyrir Íslendinga.
Hólmgeir Baldursson
stofnandi Filmflex